Forsetinn þarf að skilja gangverk samfélags og stjórnmála

Sameinandi afl

Forsetinn er fulltrúi þjóðarinnar allrar og þarf sem slíkur að vera sameinandi afl sem treystir sér til að tala til allrar þjóðarinnar og fyrir hönd hennar.

Styrkur íslensks samfélags felst í því að við getum öll verið ólíkir einstaklingar, með ólíkar skoðanir, lífssýn og lífsreynslu á sama tíma og við tilheyrum þjóðarheild. Saga okkar sem þjóðar sýnir að okkur farnast best þegar við róum öll í sömu átt, hvert með sínum hætti og óháð því hvaðan við komum. Hlutverk forsetans er að stuðla að samstöðu í þágu samfélagsins á sama tíma og fjölbreytni og það sem aðskilur okkur fær að njóta sín.

Forseti þarf að geta sýnt forystu og auðmýkt í senn til þess að sameina þjóðina og þannig styrkja grundvöll lýðræðis og mannúðar.  Það eru tímar mikilla breytinga og við stöndum frammi fyrir nýjum áskorunum sem geta reynt á samheldni okkar. Í þessum aðstæðum er hlutverk forseta að byggja brýr á milli ólíkra skoðana og vinna gegn skautun til að verja þau grunngildi sem við byggjum íslenskt samfélag á; lýðræði, mannréttindi og réttarríkið.

Öflugur málsvari þjóðarinnar

Stærð Íslands á alþjóðavettvangi verður ekki mæld í mannfjölda eða hekturum heldur þeim áhrifum sem við höfum. Það er hlutverk forseta að auka áhrif, veg og virðingu Íslands í samfélagi þjóðanna.

Forseti þarf að beita sér fyrir því að áhrifa Íslands gæti sem víðast, með því að ná eyrum jafnt þjóðarleiðtoga sem annarra þegar þess þarf. Forseti framfylgir utanríkisstefnu Íslands og sýnir frumkvæði við að gæta að hagsmunum lands og þjóðar. Þannig getum við best nýtt þau tækifæri sem við eigum á ólíkum sviðum. Íslenskt hugvit hefur skilað framförum um allan heim og þar hefur forsetinn hlutverki að gegna.

Það eru flóknir tímar í heiminum. Stríðsátökum fer fjölgandi og mannkynið stendur frammi fyrir stórum áskorunum á sviði umhverfis- og auðlindamála, tækniþróunar, lýðræðis og mannréttinda. Það hefur aldrei verið mikilvægara að tala fyrir þeim grunngildum sem skipta mestu máli fyrir land og þjóð: lýðræði, jafnrétti, mannréttindum og friðsamlegum lausnum. Rödd Íslands um þessi efni þarf að heyrast skýrt á alþjóðavettvangi og þar gegnir forsetinn mikilvægu hlutverki.

Tunga og menning

Forseti Íslands á að vera fulltrúi hins besta í menningu þjóðarinnar. Hann þarf að standa styrkum fótum í íslenskri sögu, menningu og tungu, þekkja í senn arfleifð þjóðarinnar og það nýstárlegasta í menningunni og geta þannig verið öflugur boðberi íslenskrar menningar um heim allan og talað máli menningar, íþrótta, tungu og vísinda heima og erlendis.

Móðurmál er ein mikilvægasta eign hvers manns og fjöregg hverrar þjóðar. Þess vegna er eitt mikilvægasta hlutverk forsetans að gæta réttar íslenskrar tungu á tímum örra samskiptabreytinga. Það er hagur okkar allra að íslensk tunga haldi áfram að vaxa og dafna.

Íslenskt samfélag byggir á fornum rótum um leið og það tekur stöðugum breytingum. Menning og saga landsins veitir landsmönnum mikilvægan hljómbotn og er þeim styrkur í nýrri sköpun og hugsun. Þess vegna er aðgengi að menningu mikilvægt fyrir alla landsmenn. Forseti á að hefja sögu landsins, náttúru og menningu hátt en standa um leið vörð um þá sýn að allir íbúar landsins eigi hlut í menningunni og þjóðarheildinni.

Forsetaembættið

Forsetaembættið er mikilvægt fyrir þjóðina og forsetinn þarf að skilja gangverk samfélags og stjórnmála. Forsetinn þarf að geta tekið erfiðar ákvarðanir með óhlutdrægum hætti, hafa góða dómgreind og hafa kjark til þess að gæta hagsmuna þjóðarinnar.

Katrín hefur sýnt að hún hefur þessa eiginleika. Hún hefur leitt þjóðina í gegnum erfiðar áskoranir og áföll. Hún hefur leitt saman ólíka hópa með ólík sjónarmið að sameiginlegum markmiðum.

Katrín er með ómetanlega reynslu og þekkingu í farteskinu til þess að takast á við krefjandi áskoranir nútímans og leiða þjóðina með sér.

Móðurmál er ein mikilvægasta eign hvers manns og fjöregg hverrar þjóðar.